Bjarni tekur við af Ragnheiði

Bjarni Örn Kærnested hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni hjá Isavia. Hann tekur við stöðunni af Ragnheiði Hauksdóttur sem lét nýverið af störfum hjá Isavia.

Bjarni Örn hefur starfað sem forstöðumaður á upplýsingatæknisviði hjá Össuri frá árinu 2019. Þar hefur hann borið ábyrgð á fjármálum og rekstri upplýsingatæknisviðsins og alþjóðlegri verkefnastofu fyrirtækisins.

Áður starfaði hann sem forstöðumaður miðlægra lausna hjá Origo og á upplýsingatæknisviði Arion banka þar sem hann tók m.a. þátt í að móta og þróa stafræna vegferð bankans.

Bjarni Örn er með B.Sc.-gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og MBA frá Waseda-háskólanum í Japan. Hann mun hefja störf hjá Isavia í byrjun nýs árs.

„Stafræna vegferðin okkar er rétt að byrja og tækifærin sem fylgja upplýsingatækninni eru án takmarkanna. Sú reynsla og þekking sem Bjarni Örn kemur með að borðinu mun koma til góða  þegar kemur að því að tryggja samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar til framtíðar,“ skrifar Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í tilkynningu.

Þú færð aðgang að öllum greinum Túrista í 30 daga fyrir 300 krónur með því að nota afsláttarkóðann „300″ þegar þú pantar áskrift. Í framhaldinu fullt mánaðarverð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.