Bólusetningarskírteini við sænsku landamærin

Íslendingar sem ferðast til Svíþjóðar frá og með næsta þriðjudegi verða að sýna bólusetningarskirteini við komuna. Mynd: Swedavia

Frá og með 21. desember verða allir þeir sem ætla að ferðast til Svíþjóðar frá hinum Norðurlöndunum að sýna fram á fulla bólusetningu. Ekki hefur verið gerð krafa um slíkt hingað til. Skýringin á þessari breytingu liggur í fjölgun smita í Evrópu að því fram kom í máli Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, í morgun.

Sænski forsætisráðherran bætti því við að Norðmenn væru áfram velkomnir til Svíþjóðar þó tíðni nýsmita þar í landi væri mun hærri en í Svíþjóð. Hún biðlaði þó til nágranna Svía að flytja ekki jólaveislurnar yfir landamærin þó þar ríktu minni almennar takmarkanir en í heimalandinu.

Icelandair flýgur daglega til Stokkhólms og þeir Íslendingar sem nýta sér þær ferðir frá og með þriðjudeginum næsta verða að hafa bólusetningarskirteini við höndina.