Fljúga milli Íslands og Barcelona í allan vetur

Frá Barceloneta ströndinni í Barcelona. MYND: LUCREZIA CARNELOS / UNSPLASH

Spænska lággjaldaflugfélagið Vueling gerði nú í nóvember hlé á Íslandsflugi sínu frá Barcelona en tók upp þráðinn að nýju síðastliðinn föstudag. Ætlunin er að fljúga hingað í allan vetur á bæði mánudögum og föstudögum samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu.

Ekkert annað félag býður upp á áætlunarflug héðan til höfuðstaðar Katalóníu yfir veturinn en Play gerir ráð fyrir að hefja flug þangað aftur í byrjun apríl.

Icelandair sem flaug til Barcelona síðstliðið sumar í fyrsta sinn í mörg ár hefur ekki opnað fyrir sölu á flugi þangað á næsta ári. Eins og staðan er núna verða það því eingöngu Play og Vueling í samkeppni um farþega sem vilja fljúga beint milli Barcelona og Íslands á næstu sumarvertíð.

Þess má geta að Vueling var nýverið valið besta lággjaldaflugfélag Evrópu á vegum notenda ferðasíðunnar Skytrax en þau verðlaun eru hátt skrifuð í ferðageiranum.

Þú færð aðgang að öllum greinum Túrista í 30 daga fyrir 300 krónur með því að nota afsláttarkóðann „300″ þegar þú pantar áskrift. Í framhaldinu fullt mánaðarverð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.