Flug til sjö borga á jóladag

Leifsstöð verður ekki tóm í dag eins og áður var á jóladag. Mynd: Isavia

Sú séríslenska hefð að gera hlé á öllu millilandaflugi á jóladag er á undanhaldi því í dag eru sjö brottfarir á dagskrá Keflavíkurflugvallar. Allar ferðirnar eru á vegum erlendra flugfélaga því hvorki Icelandair né Play bjóða upp á flug frá landinu í dag.

Og það var lengi vel þannig að ekki var hægt að fljúga til eða frá Keflavíkurflugvelli á jóladag jafnvel þó flugvellir í löndunum í kringum okkur hafi verið opnir á þessum degi sem og sem og aðra daga ársins. Með aukinni ásókn erlendra flugfélaga í Íslandsflug þá er þetta ferðahlé yfir jólin á undanhaldi.

Í dag eru fimm af sjö brottförum dagsins á vegum Wizz Air og munu þotur félagsins fljúga héðan til London, Katowice, Búdapest og Vínarborgar síðar í dag. Ferð félagsins til Varsjár var á dagskrá tíu mínútur yfir eitt í nótt.

Þess til viðbótar þá býður Transavia upp á flug til Parísar í dag og Edelweiss flýgur til Zurich.