Flugfélögin fjölga ferðunum til Spánar

Við sundlaugarbakka á Tenerife. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Tenerife og Alicante hafa verið tveir vinsælustu áfangastaðir Íslendinga síðustu misseri og stjórnendur íslensku flugfélaganna sjá tækifæri í ennþá tíðari brottförum þangað á næstunni. Sumaráætlun Play á næsta ári gerir þannig ráð fyrir að flogið verði þrisvar í viku til Tenerife og jafn oft til Alicante. Þetta er helmings viðbót frá því sem var síðastliðið sumar.

Hjá Icelandair hefur svo verið boðuð uppstokkun í starfsemi félagsins í flugi til Spánar og sólarlanda líkt og Túristi greindi frá fyrir helgi. Hluti af breytingunni er sá að flugfélagið sjálft mun sjá um sölu á farmiðum í ferðir sínar til Alicante í stað þess að láta systurfélagið Vita um söluna. Fleiri sólaráfangastöðum verður á sama tíma bætt við leiðakerfi flugfélagsins og viðskiptavinir flugfélagsins munu þá geta bókað hefðbundnar sólarlandaferðir á heimasíðu Icelandair.

Á sama tíma og flugfélögin tvö auka umsvif sín í sólarlandaflugi þá hefur Samkeppnisstofnun gefið sér nærri eitt ár í að skoða samruna tveggja af stærstu ferðaskrifstofum landsins. En tilkynnt var um kaup Ferðaskrifstofu Íslands á Heimsferðum í lok síðasta árs og ennþá liggur ekki fyrir hvort fyrirtækin tvö fá að sameinast eða ekki.

Tölur frá spænskum flugmálayfirvöldum sýna að stærsti hluti þeirra sem ferðast frá Íslandi til Tenerife og Alicante situr annað hvort í þotum Icelandair eða Play.