Frá þessum sex þjóðum komu fleiri ferðamenn en fyrir heimsfaraldur

Mynd: Nicolas J Leclercq

Í nýliðnum nóvember innrituðu 75 þúsund útlendingar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli. Á sama tíma í hittifyrra voru þeir 131 þúsund og samdrátturinn því 43 prósent. Mestu munar um miklu færri Bandaríkjamenn og Breta og eins komu nærri engir ferðamenn frá Asíu.

Þróunin var hins vegar ekki neikvæð í öllum tilvikum.

Því áfram heldur straumurinn frá Ítalíu að aukast í takt við fjölgun flugferða þaðan til Íslands. Í nóvember komu hingað um þrjú þúsund Ítalir sem er aukning um 31 prósent frá sama tíma árið 2019. Einnig vekur athygli að fjöldi Þjóðverja er á uppleið frá því sem var fyrir Covid-19 en það var einnig niðurstaðan í október.

Hlutfallslega er aukningin hins vegar mest í komum Austurríkismanna eins og sjá má á töflunni. Þar þarf þó ekki ýkja mikið til því austurrískir ferðamenn hér á landi eru vanalega fáir á þessum tíma árs.