Hefja flug til Eyja á Þorláksmessu

Hörður Guðmundsson, forstjóri og stofnandi Ernis. Mynd: Sigurður Bogi Sævarsson / Morgunblaðið

Flugfélagið Ernir hefur gert samkomulag við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um flug til Eyja tvisvar sinnum í viku, mánudaga og föstudaga. Fyrsta ferð er þó á dagskrá strax á morgun, fimmtudag enda verður áætlunin með aðeins öðrum hætti yfir hátíðarnar. Föst áætlun hefst í byrjun nýs árs.

Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að samkomulagið við ríkið sé gert í ljósi þess að eftirspurn í innanlandsflugi hafi dregist mikið saman í heimsfaraldrinum.

„Að mati ráðuneytisins var því talið nauðsynlegt að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á flugi til og frá Vestmannaeyjum í vetur á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mjög mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Vestmannaeyjum,“ segir í tilkynningunni.

Hér á síðum Túrista rakti Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis, nýverið hversu erfitt það væri fyrir flugfélögin að halda úti ferðum til Eyja í samkeppni við niðurgreiddar ferjusiglingar. En Ernir hættu flugi til Eyja í september í fyrra eftir að hafa haldið úti áætlunarferðum þangað í áratug.

Síðastliðið sumar spreytti Icelandair sig á flugi til Eyja en gaf það frá sér fljótlega.

Í tilkynningu frá flugfélaginu Erni segir að það sé mikið fagnaðarefni að félagið hafi möguleika á að Vestmannaeyjar á ný og vonandi verði hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar og með fleiri flugferðum í viku hverri.