Icelandair fylgir fordæmi Lufthansa og SAS

Efri röðin sýnir útlit þota Lufthansa, SAS og Icelandair fyrir breytingar. Í neðri röðinni er útlit eftir breytingar sem SAS og Lufthansa gerðu árið 2018. Neðri myndin af Icelandair þotu er tölvuteikning sem Mogginn birti í dag. Myndir: Flugfélögin sjálf og tölvuteikning Mbl.

Frá aldarmótum hefur vörumerki Icelandair verið í gulum lit í auglýsingum félagsins og eins á stélum flugvélanna. Guli liturinn hvarf úr markaðsefninu nýverið og brátt gerist það sama á flugvélaskrokkunum sjálfum líkt og Túristi fjallaði um í haust.

Mbl kynnir þessar breytingar Icelandair í dag og birtir tölvuteikningu af nýju útliti þotanna. Sú sýnir vel að Icelandair ætlar að gera mjög sambærilegar breytingar á stélum sinna flugvéla og bæði Lufthansa og SAS gerðu árið 2018.

Fyrir breytingu var blái liturinn hjá þessum tveimur félögum aðeins á stélinu sjálfu líkt og verið hefur hjá Icelandair. Eftir breytingar hjá SAS og Lufthansa er skrokkurinn undir stélinu líka blár en sá flötur byrjar á skálínu. Þá leið ætlar Icelandair líka að fara eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Nýjungin hjá íslenska félaginu er þó sú að setja línu í öðrum lit inn á bláa flötinn.