Icelandair til Raleigh í Norður-Karólínu

Eins og staðan er í dag verður Icelandair eina félagið sem býður upp á Evrópuflug frá flugvellinum í Raleigh. Mynd: RDU

Bandaríska borgin Raleigh í Norður-Karólínufylki er nýr áfangastaður Icelandair vestanhafs. Fyrst ferð félagsins til borgarinnar er á dagskrá þann 12. maí og stefnt er að fjórum ferðum í viku út október.

Ekkert annað evrópskt flugfélag flýgur til Raleigh en fyrir heimfaraldur áttu íbúar borgarinnar kost á að fljúga beint þaðan til London með American Airlines og til Parísar með Delta. Hvorugt þessara félaga hefur tekið upp þráðinn í Evrópuflugi frá Raleigh-Durham flugvelli.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að Raleigh hafa stækkað hratt síðustu ár og þar risið sterk fyrirtæki í tæknigeiranum og háskólar á heimsmælikvarða. Í borginni búa rúmlega tíu milljónir manna og er hún jafnframt höfuðstaður Norður-Karólínufylkis.

„Raleigh er spennandi viðbót við leiðakerfið okkar. Norður Karólína hefur upp á margt að bjóða og tengingar við borgina geta einnig komið sér vel fyrir háskólasamfélagið og viðskipti milli Íslands og Bandaríkjanna. Þá skapast góðar tengingar fyrir íbúa Norður-Karólínu við Ísland og áfram til áfangastaða Icelandair í Evrópu. Undanfarin ár höfum við lagt áherslu á að bæta við nýjum áfangastöðum vestanhafs sem hafa litlar tengingar við Evrópu fyrir. Þannig getur félagið bætt mjög þjónustu frá þessum svæðum til Evrópu og nýtt þau tækifæri sem liggja í öflugu leiðakerfi okkar og stuttum tengitíma á Keflavíkurflugvelli,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.