Isavia á rétt á bótum vegna þotu Wow

Deilan um kyrrsetningu á einu af þotum Wow Air var tekin fyrir á öllum dómstigum í hittifyrra. Nú fyrir jól féll svo nýr dómur í skaðabótabótamáli Isavia gegn eiganda sínum og bandarískri flugvélaleigu.

Þota Wow Air sem Isavia kyrrsetti í mars 2019. Þotan er í dag í flota flugfélagsins Latam en það hefur verið í greiðsluskjóli síðan heimsfaraldurinn hófst. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Sjö af þeim níu Airbus þotum sem voru í flota Wow air undir það síðasta voru í eigu flugvélaleigunnar Air Lease Corporation. Ein þessara þota var kyrrsett á Keflavíkurflugvelli í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins í lok mars árið 2019 og fóru stjórnendur Isavia fram á að leigusalinn gerði upp ríflega tveggja milljarða króna skuld flugfélagins við Keflavíkurflugvöll.

Forstjóri Air Lease Corporation sagði af því tilefni að krafa Isavia um að fyrirtæki hans gengist í ábyrgð fyrir ógreiddum flugvallagjöldum Wow Air væri ófyrirleitin og óskiljanleg.

Kyrrsetning þotunnar fór stuttu síðar fyrir héraðsdóm. Niðurstaða dómsins var sú að eigandi þotunnar væri aðeins ábyrgur fyrir ógreiddum flugvallargjöldum sem rekja máttu til þessarar ákveðnu þotu en ekki heildarskuldar Wow Air við Keflavíkurflugvöll. Í því samhengi má rifja upp að kyrrsetta þotan var sú sem var í raun sú sem var með stysta skuldahalann.

Isavia áfrýjaði ákvörðun héraðsdóms til Landsréttar sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru að finna neinar takmarkanir á umfangi þeirra gjalda sem heimilt væri að þvinga fram greiðslur á með því að aftra för loftfars.

Hæstiréttur ómerkti þennan dóm Landsréttar. Deilan kom því á ný inn á borð Héraðsdóms Reykjaness og þar kvað dómari upp þann úrskurð að eiganda þotunnar væri heimilt að flytja þotuna frá landinu. Isavia stefndi í kjölfarið Air Lease Corporation og íslenska ríkinu vegna þess tjóns sem fyrirtækið telur sig hafa orðið fyrir vegna þessa úrskurðar.

Héraðsdómur dæmdi svo fyrir jólin íslenska ríkið og flugvélaleigunar sjálfa til að greiða Isavia rúma tvo og hálfan milljarða króna vegna saknæmrar háttsemi dómara við Héraðsdóm Reykjaness sumarið 2019. Ekki liggur fyrir hvort málinu verður áfrýjað en þess ber að geta að Isavia er í eigu íslenska ríkisins að öllu leyti.