Kaupa lendingarleyfi Norwegian í London

Mynd: Wizz Air

Ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air stefnir á aukin umsvif á í London því nú hefur félagið keypt fimmtán afgreiðslutíma á Gatwick flugvelli af Norwegian. Norska félagið var stórtækt á þessum næststærsta flugvelli Bretlands fyrir heimsfaraldurinn en í dag einbeitir félagið sér fyrst og fremst að flugi til og frá Skandinavíu.

Stjórnendur Wizz Air hafa aftur á móti nýtt síðustu misseri í að auka umsvifin og með nýju lendingarleyfunum á Gatwick getur félagið bætt fjórum þotum við flota sinn á breska flugvellinum. Þar með eykst útgerð Wizz Air á Gatwick umtalsvert en hún hófst í raun þegar félagið fékk hluta af lendingarleyfum Wow Air.

Gengið var frá þeim viðskiptum þegar Skúli Mogensen hóf söluviðræður við Indigo Partners árið 2018 en þetta bandaríska fjárfestingafélag hefur verið meðal stærstu hluthafa Wizz Air um langt skeið. Stjórnarformaður Wizz Air er til að mynda Bill Franke, stofnandi Indigo Partners.

Þess má geta að Wizz Air flýgur til Íslands frá Luton flugvelli á meðan Easyjet heldur út ferðum hingað frá bæði Luton og Gatwick.