Komu sér ekki saman um ferðareglur yfir jól og áramót

Frakkar hafa lokað á ferðamannastraum frá Bretlandi og fjöldi annarra Evrópuríkja hefur gripið til eigin aðgerða til að draga úr líkunum á aukinni útbreiðslu ómíkróm afbrigðisins.

Farþegar á Schiphol flugvelli í Amsterdam. MYND: SCHIPHOL AMSTERDAM AIRPORT

Á leiðtogafundi Evrópusambandsríkjanna í Brussel í dag voru bundnar vonir við að samþykktar yrðu samdræmdar reglur um ferðalög innan aðildarlandanna næstu tvær vikur. Það tókst þó ekki og því er ástandið í dag farið að minna á það sem var sumarið 2020 þegar hvert og eitt land fór eigin leið í því að opna landamærin á ný.

Til marks um það hafa Frakkar lokað fyrir ferðalög þangað frá Bretlandi og stjórnvöld í Portúgal, Írlandi, Ítalíu og Grikklandi hafa gefið út að ferðamenn þar verði að framvísa nýju neikvæðu Covid-prófi við landamærin. Skiptir þá engu hvort viðkomandi hafi verið bólusettur eða ekki.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur aftur á móti sagt að þar verði íbúar annarra ESB-ríkja ekki krafðir um Covid-próf svo lengi sem þeir hafa undir höndum kórónuveirupassa. Forsætisráðherrar Belgíu og Lúxemborg eru á sömu skoðun og Macron samkvæmt frétt Sænska dagblaðsins.

Í næstu viku þyngist flugumferðin frá Íslandi til Spánar og þá eru til að mynda fjórtán ferðir á dagskrá Keflavíkurflugvallar til Tenerife og Las Palmas. Á Spáni verða allir Evrópubúar að sýna kórónuveirupassa við komuna til landsins.