Leigja tvær Max þotur

norwegian vetur
Í dag notast Norwegian aðeins við eldri gerðir af Boeing 737 þotum en brátt bætast við nýjar Boeing 737 Max vélar. Mynd: Norwegian

Norwegian gerði samning við Boeing árið 2012 um kaup á eitt hundrað Boeing 737 Max þotum. Félagið náði að taka nokkrar þeirrar í notkun áður en allar flugvélar af þessari gerð voru kyrrsettar í mars árið 2019 í kjölfar tveggja flugslysa.

Þegar heimsfaraldurinn skall á í framhaldinu og þá vildu stjórnendur Norwegian losna undan samningi sínum við Boeing. Vísuðu þeir meðal annars til þess að vélarnar væru augljóslega gallaðar og eins hefði orðið meira en eins árs dráttur á afhendingu þeirra.

Ekki er búið að greiða úr þessum ágreiningi Boeing og Norwegian en nú í morgunsárið tilkynnti norska lággjaldaflugfélagið engu að síður að gengið hefði verið frá samningi um leigu á tveimur Max þotum. Þær eru báðar af minnstu gerð, Max 8, en á tímabili nýtti félagið þess háttar þotur í Íslandsflug sitt frá Stokkhólmi.

Nýju flugvélarnar bætast fljótlega við flota Norwegian og í tilkynningu er haft eftir forstjóra þess að leigukjörin séu hagstæð. Félagið borgi aðeins fyrir þá klukkutíma sem flugvélarnar eru í notkun en þannig kjör fékk Play líka á þeim þremur þotum sem félagið er með í dag.

Það kemur einnig fram í tilkynningu Norwegian að félagið geti skipt út Max þotum tveimur fyrir Airbus flugvélar af nýjustu gerð þegar fram líða stundir. Í dag samanstendur floti Norwegian af eldri gerðinni af Boeing 737 en félagið náði samkomulagi við Airbus í fyrra um að falla frá samningi á kaupum á 88 Airbus A320 og A321neo þotum.

Það hefur komið fram í máli stjórnenda Icelandair að félagið leiti eftir þremur Max þotum til leigu fyrir næsta sumar.

Þú færð aðgang að öllum greinum Túrista í 30 daga fyrir 300 krónur með því að nota afsláttarkóðann „300″ þegar þú pantar áskrift. Í framhaldinu fullt mánaðarverð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.