Loka í Leifsstöð

Það er rýmingarsala þessa dagana í ARG Fashion í Leifsstöð enda lokar búðinni í lok mánaðar. Mynd frá lesanda

Dagar tískuvöruverslunarinnar ARG Fashion í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru taldir því búðinni verður lokað nú um áramótin. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia, sem rekur flugstöðina, þá verður rýmið sem verslunin hefur haft síðustu ár boðið út fyrir veitingarekstur sem áformað er að opni næsta haust.

Verslun ARG Fashion í Leifsstöð er á vegum norska fyrirtækisins Airport Retail Group sem rekur tugi fataverslana í flugstöðvum á hinum Norðurlöndunum og í Bretlandi. Nú í heimsfaraldrinum hafa umsvif fyrirtækisins dregist töluvert saman en fyrirtækið tryggði sér í sumar leyfi fyrir áframhaldandi rekstri verslana í norskum flugstöðvum.

Félagið er þó að draga saman seglin hér á landi en Túristi hefur árangurslaust reynt að fá svör frá Norðmönnunum um ástæður þess.

Sem fyrr segir mun veitingastaður opna í haust þar sem ARG Fashion er í dag og þar með er engin hefðbundin tískuvöruverslun eftir í Leifsstöð. Fatnað er þó hægt að fá í verslunum 66°Norður og Rammagerðarinnar.