Mæla ekki með ferðalögum út í heim

vancouver yfir d
Horft yfir Vancouver. Mynd: Ferðamálaráð Vancouver.

Heilbrigðisráðherra Kanada biðlaði í gær til þeirra íbúa landsins sem eru á leið til útlanda að breyta ferðaplönum sínum og halda sig heima. Þessi áskorun frá ráðherranum kom í kjölfar þess að kanadísk stjórnvöld gáfu út hertar ferðaviðvaranir í von um að draga úr útbreiðslu ómíkrón afbrigðisins í Kanada. Samkvæmt nýju tilmælunum þá eru Kanadabúar beðnir um ferðast ekki til annarra landa nema nauðsyn krefji.

Búist er við að þessi breytta afstaða kanadískra stjórnvalda til ferðalaga muni hafa mikil áhrif þar í landi. Sérstaklega þar sem fjöldi fólks hafi áform um að ferðast yfir hátíðarnar eins og fram kemur í frétt CBC.

Forsvarmenn flugfélagsins Westjet, sem er það næststærsta í Kanda, mótmæltu harðlega nýrri ferðaviðvörun stjórnvalda í gærkvöld. Segja þeir að þessi breyting byggi ekki á neinum vísandlegum forsendum.

Í heimsfaraldrinum voru landamæri Kanada að mestu lokuð það var í raun ekki fyrr en í september sem flug til og frá landinu varð með eðlilegri hætti.