Margir sækjast eftir framkvæmdastjórastöðunum tveimur

Ný framkvæmdastjórn Icelandair verður skipuð forstjóra félagsins og átta framkvæmdastjórum.

MYND: ICELANDAIR

Það hefur lengi tíðkast hér á landi að flugfélögin veki á sér athygli með því að gera mikið úr því hversu margir sækja um stöður flugfreyja og – þjóna þegar þær losna. Fjölmiðlar flytja þá jafnan fréttir af hundruðum og jafnvel þúsundum umsókna og þeirri staðreynd að eingöngu lítill hluti umsækjenda fær vinnu að lokum.

Hlutfallið verður þó ennþá lægra þegar Icelandair ræður á næstunni tvo nýja framkvæmdastjóra. Stöðurnar voru auglýstar nýverið og rann umsóknarfresturinn út í fyrradag. Samtals bárust um hundrað og tuttugu umsóknir samkvæmt svari flugfélagsins við fyrirspurn Túrista.

Skiptust umsóknirnar jafnt á milli starfanna tveggja en Icelandair leitar nú eftir nýjum framkvæmdastjóra þjónustu og markaðsmála og líka framkvæmdastjóra stafrænnar þjónustu. En síðustu ár hafa verið breytingar á yfirstjórn Icelandair verið tíðar og í ár hafa til að mynda þrír framkvæmdastjórar sagt störfum sínum lausum.

Nú stendur til að fjölga í yfirstjórn flugfélagsins en líkt og fram kom hér á síðum Túrista nýverið þá verður áhersla lögð á fjölbreytni og jafnrétti við ráðningar á nýjum framkvæmdastjórum.