Með 844 sæti til Tenerife í viku hverri

Orotava dalurinn á Tenerife Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Það var fyrst í maí síðastliðnum sem Icelandair hóf áætlunarflug til Tenerife. Áður hafði félagið eingöngu flogið til spænsku eyjunnar fyrir íslenskar ferðaskrifstofur. Jafnvel þó bæði Wow Air og síðar Norwegian hafi haldið úti flugi þangað á eigin vegum.

Upphaflega gerði áætlun Icelandair aðeins ráð fyrir tveimur ferðum í viku til Tenerife, á miðvikudögum og laugardögum. Í haust bætti félagið hins vegar við tveimur brottförum í viðbót og eru þær líka á dagsrká þessa tvo daga. Þotur félagsins fljúga því af stað til Tenerife með tíu mínútna millibili á á miðvikudags- og laugardagsmorgnum.

Þessu hefur verið áframhaldið nú í vetrarbyrjun og nú gerir félagið ráð fyrir að halda uppteknum hætti fyrstu þrjá mánuði næsta árs. Og það sem meira er að nú er ætlunin að nota breiðþotur í helming ferðanna en Icelandair hefur ekki flogið svo stórum þotum til Tenerife nú í vetur.

Fyrstu mánuði næsta árs verða því sæti fyrir allt að 844 farþega í viku hverri í ferðum Icelandair til Tenerife.

Spurð hvort þessi eftirspurn eftir ferðum til Tenerife komi á óvart þá segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að hún geri það ekki.

„Við höfum fundið að það er mikil uppsöfnuð ferðaþörf hjá fólki og virðast sólarfrí vera ofarlega á lista margra. Þar er Tenerife auðvitað frábær valkostur en við sjáum líka mikla eftirspurn til Orlando eftir að Bandaríkin opnuðu aftur,“ svarar Ásdís.

Hún ítrekar það sem áður hefur komið fram að Icelandair lagi framboð að eftirspurn á hverjum tíma. Fjölgun á flugferðum til Tenerife sé því í takt við þá stefnu.

Auk Icelandair þá býður Play upp á reglulegar ferðir til Tenerife og það gera líka ferðaskrifstofurnar Heimsferðir, Úrval-Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir. Þær þrjár síðarnefndu heyra allar undir Ferðaskrifstofu Íslands en gengið var frá kaupum þess fyrirtækis á Heimsferðum í lok síðasta árs. Samkeppniseftirlitið er ennþá með þann samruna til skoðunar.

Þú færð aðgang að öllum greinum Túrista í 30 daga fyrir 300 krónur með því að nota afsláttarkóðann „300″ þegar þú pantar áskrift. Í framhaldinu fullt mánaðarverð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.