Mikil eftirspurn eftir skíðaferðum til Ítalíu

Mynd: Kipras Streimikis / Unsplash

Það er löng hefð fyrir því að Íslendingar renni sér niður brekkurnar í nágrenni við ítalska skíðabæinn Madonna di Campiglio. Og þangað stefnir fjöldi Íslendinga eftir áramót því eftirspurn eftir skíðaferðum til bæði Madonna di Campiglio og Pinzolo, á vegum Úrval-Útsýnar, hefur verið mjög góð að sögn Þórunnar Reynisdóttur, forstjóra ferðaskrifstofunnar. Hún segir ekkert hafa dregið úr áhuganum að undanförnu þrátt fyrir nýja bylgju í faraldrinum.

Auk Úrval-Útsýnar þá bjóða ferðaskrifstofurnar Heimsferðir og Vita einnig upp á skíðaferðir til Ítalíu eftir áramót.

Það eru þó ekki bara skíðaferðir sem seljast vel því nú er nærri uppselt í ferð Úrval-Útsýnar til Punta Cana í Dómínaska lýðveldinu. Þórunn segir viðtökurnar við þessari ferð vera merki um löngun fólks til að komast á framandi slóðir á ný.