Næsta ár verður á pari við 2015

Framboð á flugi mun halda áfram að aukast á næsta ári en verður þó ekki í líkingu við það sem var fyrir heimsfaraldur. Mynd: Brent Cox / Unsplash

Framboð á flugsætum mun aukast um nærri helming á næsta ári frá því sem verið hefur í ár. Þar með verður framboðið á heimsvísu álíka mikið og það var árið 2015 samkvæmt nýrri spá greiningafyrirtækisins Cirium. Til samanburðar þá stefnir í að umferðin í ár verði svipuð og árið 2006.

Innanlandsflugið verður þó búið að ná fullum bata í lok næsta árs að mati Cirium. Niðursveiflan þar hefur nefnilega verið mun minni en í alþjóðafluginu. Til marks um það þá hefur innanlandsflugið staðið undir um áttatíu prósent af flugframboðinu í ár samkvæmt útreikningum Cirium.

Stór hluti af umsvifum Icelandair snýr að flugi yfir Norður-Atlantshafið og þar ætlar Play sér líka stóra hluti. Á þessum markaði telur Cirium að framboðið árið 2023 verði sambærilegt við 2019. Sá fyrirvari er þó gerður við þessa spá að það sé í raun ekki hægt að rýna almennilega í stöðuna fyrr en farþegatölur fyrir nóvember og desember liggja fyrir. Ástæðan er sú að Bandaríkin opnuðu ekki landamæri sín gagnvart bólusettum Evrópubúum fyrr en 8. nóvember sl.