Play hefur sölu á flugi til Bandaríkjanna

Play hefur fengið öll tilskilin leyfi til að hefja flug til Bandaríkjanna frá þarlendum flugmálayfirvöldum.

Flugfélagið Play hefur í dag miðasölu á flugi til Boston og Washington D.C. í Bandaríkjunum.

Í síðarnefndu borginni lenda þotur félagsins á Baltimore-Washington flugvelli en sá er álíka langt frá bandarísku höfuðborginni og Washington Dulles flugvöllur.

Fyrsta ferð Play til Washington er á dagskrá 20. apríl og jómfrúarferðin til Boston verður þremur viku síðar.

„Það er hreint út sagt magnað að horfa upp á árangur Play nú þegar við höfum náð markmiði okkar um að hefja sölu á flugi til Bandaríkjanna. Síðustu mánuðir hafa verið virkilega krefjandi á þessum óvissutímum sem stafa af kórónuveirufaraldrinum og við værum aldrei komin á þennan stað nema með ótrúlegu baráttuþreki starfsfólks Play sem hefur aldrei látið deigan síga. Þá er ég afskaplega stoltur af því að áætlanir um stækkun leiðakerfis okkar hafi gengið upp í þessu árferði. Árangurinn er öflugt flugfélag sem mun bjóða Íslendingum ódýrari valkost í flugi til Bandaríkjanna. Við finnum fyrir miklum ferðahug, bæði hér á landi og erlendis, en kannanir sýna að tveir þriðju Bandaríkjamanna eru að skipuleggja næsta frí með erlenda áfangastaði efst í huga. Nú getum við loksins boðið flug til og frá Boston og Washington D.C. þannig að ferðalangar geta komist til Íslands og yfir Atlantshafið á viðráðanlegu verði og notið dvalarinnar á áfangastað án þess að þurfa eyða of miklu til að komast þangað,“ skrifar Birgir Jónsson forstjóri Play, í tilkynningu.

Play mun hefja sölu á fleiri áfangastöðum vestanhafs á næstunni samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu.