Sætanýtingin lækkaði í takt við minna Spánarflug

Þota Play við flugvöllinn í Amsterdam en þangað hóf félagið áætlunarflug í síðustu viku. MYND: AMSTERDAM SCHIPHOL AIRPORT

Eftirspurn eftir áætlunarflugi Play til Spánar hefur hingað til verið mun meiri en eftir ferðum félagsins til Parísar, London og Berlínar. Í nóvember var framboð á Spánarflugi á vegum Play hins vegar mun minna en mánuðina á undan. Sætanýtingin í nóvember lækkaði því um tíu prósentustig frá því í október og var 58 prósent. Þetta var engu að síður næstbesta sætanýtingin sem félagið hefur hingað til náð.

Farþegum fækkaði svo um nærri þriðjung frá því í október og voru tæplega 17 þúsund eins og sjá má á grafinu.

Þar sem flugið til spænskra áfangastaða hefur í raun dregið vagninn hjá Play þá var þessi niðursveifla fyrirséð líkt og Túristi ræddi við Birgi Jónsson, forstjóra Play, um miðjan nóvember.

Þar sagði Birgir að skýringin á minna framboði á Spánarferðum í mánuðinum væri sú að félagið hafi viljað hafa vaðið fyrir neðan sig.

„Mögulega hefðum við getað keyrt á Spán í nóvember, þó að sögulega sé það tæpt. Við vildum vera varkár og taka ekki áhættuna og skiljum mögulega eftir tekjur nú þegar eftirspurnin er góð en spörum líka kostnað. Þetta þarf að vera í jafnvægi,“ sagði Birgir.

Áætlunarflug Play hófst í lok júní og frá þeim tíma og fram í enda nóvember hefur félagið flutt rúmlega 83 þúsund farþega. Það stefnir því í að Play nái 100 þúsund farþega markinu fyrir áramót en sú sviðsmynd sem fjárfestum var kynnt í tengslum við hlutafjárútboð félagsins í sumarbyrjun gerði ráð fyrir 143 þúsund farþegum.