Senuþjófurinn á jólamatseðlinum er brauð með skinku og osti

Skjámynd af jólaseðli Icelandair

Það voru fluttar af því fréttir í síðustu viku að nú gætu farþegar Icelandair á ný pantað sér baguette með skinku og osti. Sá réttur hefur um langt skeið notið mikilla vinsælda hjá viðskiptavinum félagsins eins og fram kom í grein á síðum Túrista árið 2013.

Sú frétt var skrifuð í tilefni af því að þáverandi stjórnendur Icelandair ákvaðu að hætta sölu á brauðmeti um borð vegna viðhorfa um hollustu á þeim tíma. Vinsælasti rétturinn, baguette með skinku og osti, fékk hins vegar að vera áfram á matseðlinum þrátt fyrir að innihalda ekkert grænmeti.

Í yfirstandandi heimsfaraldri hefur veitingasala um borð í þotum Icelandair verið takmörkuð. Nú er verið að auka þjónustuna smátt og smátt og nýverið kynnti félagið nýjan jólamatseðil. Þar eru ýmsar nýjungar en líka klassískir jólaréttir eins og flatkökur með hangikjöti og malt og appelsín. Einnig má fá hjónabandssælu, sérstaka jólasamloku dagsins og jólanammi. Það var hins vegar endurkoma baguette með skinku og osti í þoturnar sem stal senunni sem fyrr segir.

Á matseðlinum eru tveir réttir fyrir farþega sem borða ekki kjöt, vegan grænmetissúpa og pizza margherita.

Þeir sem sitja á Saga Class næstu vikurnar fá svo H.C. Andersen smurbrauð, kalkúnasalat, bakað epli, hindberjaskyrmús og ris a la mande. 

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair þá er fyrirhugað að auka úrval veitinga á næsta ári og styðja um leið við markmið um sjálfbærni rekstrarins.