Skora á Icelandair í þremur borgum til viðbótar

Samkeppni íslensku flugfélaganna harðnar.

Tvö umsvifamestu félögin á flugvellinum í Dublin, Aer Lingus og Ryanair, hafa ekki sýnt Íslandsflugi áhuga. Icelandair hefur því verið eitt um ferðirnar þangað eftir að Wow Air varð gjaldþrota. Mynd: Dublin flugvöllur

Frá því að Wow Air féll þá hefur Icelandair verið eitt um ferðirnar frá Keflavíkurflugvelli til bæði Dublin og Brussel. Á því verður breyting í vor þegar þotur Play munu setja stefnuna á þessar tvær borgir. Auk þess ætlar félagið að hefja flug til Madrídar og þangað flýgur Icelandair einnig og eins býður Iberia Express upp á Íslandsflug frá spænsku höfuðborginni.

„Það er virkilega ánægjulegt að bæta við enn fleiri áfangastöðum í Evrópu sem styrkja leiðakerfið okkar til muna. Þetta eru frábærar borgir sem hafa í gegnum tíðina notið mikilla vinsælda meðal Íslendinga og það er gaman að geta boðið lægsta verðið til þessara þriggja borga eins og til annarra áfangastaða okkar. Þá eru þetta borgir sem eru mikilvægar fyrir farþegaflutninga yfir Atlantshafið,“ skrifar Birgir Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningu.

Með þessum þremur nýju áfangastöðum þá eru áfangastaðir Play í Evrópu orðnir 22 talsins. Félagið mun svo fljótlega tilkynna hvaða borgir á austurströnd Bandarikjanna bætast við leiðakerfið næsta sumar en gera má ráð fyrir að það verði Baltimore, Boston og svo flugvöllur í nágrenni við New York.


Þú færð aðgang að öllum greinum Túrista í 30 daga fyrir 300 krónur með því að nota afsláttarkóðann „300″ þegar þú pantar áskrift. Í framhaldinu fullt mánaðarverð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.