Svíar herða reglurnar við landamærin

Erlendir ferðamenn verða frá og með deginum í dag að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr Covid-19 prófi við komuna til Svíþjóðar. Prófið má í mesta lagi vera tveggja sólarhringa gamalt og þeir fullbólusettu fá ekki undanþágu frá kröfunni.

Þessi breyting er hluti af hertum aðgerðum í Svíþjóð til að draga úr útbreiðslu kórónaveirunnar. Fyrir jól voru til að mynda settar reglur um að allir gestir matsölustaða sitji til borðs og fjöldatakmarkanir tóku gildi í verslunum.

Þotur Icelandair fljúga daglega til Stokkhólms og þeir sem ætla að nýta sér þær ferðir á næstunni verða að vera með neikvæðar niðurstöður úr Covid-19 prófi í farteskinu. Þeir sem búa í Svíþjóð þurfa þess ekki.