Þotur norska nýliðans ekki heldur þéttsetnar

Þeir áfangastaðir sem Play og Flyr selja flugmiða til í dag.

Eitt af því sem einkennir rekstur Ryanair og Wizz Air er mjög há sætanýting. Það þarf nefnilega að halda fjölda óseldra sæta í lágmarki þegar fargjöldin eru lægri en hjá keppinautunum. Fyrir heimsfaraldur var nýtingin hjá þessum stærstu lágfargjaldafélögum Evrópu að jafnaði 90 til 95 prósent.

Hlutfallið hefur verið mun lægra síðustu misseri þó það hafi hækkað á ný. Í nýliðnum nóvember fór sætanýtingin til að mynda upp í 86 prósent hjá Ryanair og 76 prósent hjá Wizz Air. Hjá Norwegian, sem er stærsta norræna lágfargjaldafélagið, var nýtingin 77 prósent í síðasta mánuði.

Það gengur hins vegar verr hjá Play og norska flugfélaginu Flyr að fylla sætin hjá sér. Í nóvember var sætanýtingin hjá Play 58 prósent en 55 prósent hjá Flyr. Bæði þessi flugfélög flokkast sem lágfargjaldafélög og eiga það líka sameiginlegt að hafa byrjað flugrekstur í sumarbyrjun í kjölfar hlutafjárútboðs.

Hjá Flyr hefur hlutfall óseldra sæta reyndar verið ennþá hærra en hjá Play. Sérstaklega var staðan slæm hjá Norðmönnunum í ágúst og september þegar rétt rúmlega þriðja hvert sæti var skipað farþegum. Síðustu tvo mánuði hefur staðan batnað eins og sjá má á línuritinu. Það sama hefur gerst hjá Play.

Áform stjórnenda Play gerðu reyndar ráð fyrir mun betri árangri á þessu sviði. Í kynningu sem félagið birti í tengslum við hlutafjárútboð sitt í sumarbyrjun var aðeins birt ein rekstraráætlun og sú gekk út á 72 prósent sætanýtingu í ár.

Segja má að verri sætanýting hjá Flyr en Play endurspeglist í rekstrarafkomunni. Á þriðja fjórðungi ársins, júlí til september, tapaði norska félagið nefnilega nærri tvöfalt meira fé en Play. Í flota Flyr voru þá fjórar þotur og rekstrartapið nam um 2,3 milljörðum króna. Hjá Play voru þrjár þotur og rekstrartapið tæplega 1,2 milljarðar króna þegar miðað er við gengið 30. september.

Þann dag átti Play um 8,2 milljarða króna í sínum sjóðum en Flyr 5,4 milljarða kr. Það þykir forráðamönnum norska félagsins of lítið og því ætla þeir að efna til hlutafjárútboðs eftir áramót. Þar er búið er að tryggja sölu á hlutabréfum fyrir 3,6 milljarða króna (250millj. norskar). Í útboði Flyr í byrjun þessa árs söfnuðust aftur á móti um 8,6 milljarðar kr. (600 millj. norskar kr.) í hlutafé.

Til samanburðar þá fékk Play inn um tíu milljarðar króna í hlutafjárútboðum sínum í vor og í sumarbyrjun.