Þriðji hver útlendingur með bandarískt eða breskt vegabréf

Það er ennþá töluvert í að hópur erlendra farþega í Leifsstöð verði álíka og fyrir heimsfaraldur.

Mynd: Isavia

Það voru 75 þúsund erlendir farþegar sem innrituðu sig í flug á Keflavíkurflugvelli í nóvember en þessi talning hefur lengi verið nýtt til að meta fjölda erlendra ferðamanna á Íslandi. Bandaríkjamenn og Bretar voru fjölmennastir í hópnum eða um þriðjungur af heildinni.

Leita þarf aftur til nóvember árið 2015 til að finna álíka fjölda erlendra brottfararfarþega samkvæmt frétt á vef Ferðamálastofu.

Frá áramótum hafa um 623 þúsund erlendir farþegar flogið frá Íslandi sem er þriðjungs aukning frá sama tíma í fyrra en aftur á móti nemur fækkunin tveimur þriðju þegar horft er til 2019.