Þungt hljóð í norskri ferðaþjónustu

Frá Stegastein í Noregi. Mynd: Visit Norway

Níu af hverjum tíu ferðaþjónustufyrirtækjum í Noregi hafa undanförnu fengið afbókanir frá viðskiptavinum sínum og eigendur þriðja hvers fyrirtækis í greininni óttast gjaldþrot. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar á vegum Samtaka norska atvinnurekenda (NHO) sem Dagens Næringsliv segir frá í dag.

Könnunin var gerð eftir að norsk stjórnvöld boðuðu hertar sóttvarnaraðgerðir í byrjun mánaðarins. Í gærkvöld voru reglurnar hertar enn frekar og til að mynda sett bann við sölu áfengis á börum, veitingastöðum og hótelum.