Úr eigendahópi hótelsins við Tryggvagötu

Það eru 106 herbergi á Exeter hótelinu við Tryggvagötu. Mynd: Exeter hótel

Við Tryggvagötu 12 í Reykjavík er Exeter hótelið til húsa en það opnaði árið 2018 og var þá hluti af Keahótelunum. Eigendur hótelbyggingarinnar riftu hins vegar leigusamningnum við hótelkeðjuna í fyrra og tóku sjálfir við rekstrinum.

Það var Festir, félag í eigu hjónanna Ólafs Ólafssonar og Ingibjargar Kristjánsdóttur, sem átti 60 prósent hlut í hótelbyggingunni við Tryggvagötu á móti eignarhaldsfélaginu Laxafossi. Nú hefur Festir hins vegar selt sinn hlut til sjóðs í vörslu Ísafoldar Capital Partners að því fram kemur í nýjum úrskurði Samkeppniseftirlitsins sem heimilar viðskiptin.

Sami sjóður eignast 49,1 prósent hlut í rekstrarfélaginu Exeterhouse sem rekur hótelið í byggingunni. Laxafoss fer því með meirihluta í því félagi.

Eigendur Laxafoss eru Hjalti Gylfason og Jónas Már Gunnarsson en þeir fara fyrir framkvæmdafélaginu Mannverk en það sá um byggingu Exeter hótelsins á sínum tíma. Hjalti segir í samtali við Túrista að það sé ætlun eigenda hótelbyggingarinnar að reka þar hótel með sama hætti og gert er í dag.


Uppfært: Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar vildi Hjalti Gylfason ekki upplýsa Túrista um hverjir nýir meðeigendur Laxafoss að Exeterhótelinu væru. Síðar sama dag birti Samkeppniseftirlitið ákvörðun sína um samrunann og var fréttinni hér að ofan því breytt í samræmi við það þar fram kom fram.