Bretar bóka skíðaferðir af kappi

Mynd: Kipras Streimikis / Unsplash

Frönsk stjórnvöld tilkynntu fyrr í dag að þær takmarkanir sem hafa gilt um ferðir Breta til landsins frá 18. desember sl. yrðu felldar út gildi frá og með morgundeginum. Þar með er ljóst að Bretar komast í skíðaferðir til Frakklands og sala á þess háttar ferðum hefur tekið mikinn kipp samkvæmt frétt ferðavefsins TTG.

Þar er þess getið að síðustu tvær vertíðir í frönsku fjöllunum hafi í raun farið fyrir lítið en nú sé útlit fyrir að komandi vertíð sé bjargað.

Þrátt fyrir að í franska hluta Alpanna sé mörg þekktustu skíðasvæði fjallgarðsins þá hafa íslenskar ferðaskrifstofur og flugfélög heldur kosið að fljúga sínum viðskiptavinum til Austurríkis, Ítalíu og Sviss. Framboð á beinu flugi héðan til þessara þriggja landa er nefnilega töluvert næstu vikur og mánuði.