Bretar slaka á aðgerðum við landamærin

Þeir sem ferðast til Bretlands á föstudag þurfa ekki að fara í Covid próf fyrir ferðalagið. Mynd: London Heathrow

Þegar ómíkrón afbrigði kórónuveirunnar kom til sögunnar í lok nóvember síðastliðinn þá hertu bresk stjórnvöld reglur varðandi komur fólks til landsins. Allir urðu að framvísa nýjum neikvæðum niðurstöðum úr Covid-19 prófi og fara í PCR-próf þar í landi innan við tveimur sólarhringum eftir komu.

Nú á föstudaginn falla þessar reglur hins vegar úr gildi samkvæmt því sem fram kom í máli Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á breska þinginu seinnipartinn í dag og The Independent greinir frá.

Ferðamenn á leið til Bretlands þurfa því ekki lengur að fara í Covid-próf fyrir brottför en eiga engu að síður að fara í próf í Bretlandi ekki síðar en tveimur sólarhringum eftir komuna. Það dugar hins vegar að fara í hraðpróf í stað PCR-prófs. Einnig verður ekki gerð krafa um einangrun þar til að niðurstöður liggja fyrir eins og gert hefur verið síðan í lok nóvember.

Reglurnar sem gilda frá og með föstudeginum eru þær sömu og giltu áður en hert var á aðgerðum vegna ómíkrón í lok nóvember eins og fram kemur í nýju tísti Grant Shapps, samgönguráðherra Breta, eins og sjá má hér fyrir neðan.

Þessar breytingar eiga eingöngu við þá sem hafa verið fullbólusettir því þeir sem ekki tilheyra þeim hópi verða að fara í tíu daga einangrun við komuna til Bretlands.