Finna fyrir miklum áhuga á ferðalögum til Íslands

Nú þegar eru brottfarir frá Bandaríkjunum til Íslands næsta sumar uppseldar.

Grímur og gler eru áberandi á ferðakaupstefnunni Fitur sem nú fer fram í Madríd. Þar eru fulltrúar 11 íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja. Mynd: Fitur

Þrátt fyrir heimsfaraldur og sóttvarnaraðgerðir þá stendur nú yfir ferðakaupstefnan Fitur í Madríd á Spáni. Hátt í sjö þúsund ferðaþjónustufyrirtæki frá 107 löndum taka þátt og meðal þeirra eru ellefu íslensk. Það er Íslandsstofa sem skipuleggur þátttöku hópsins og að sögn Sigríðar Daggar Guðmundsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, þá hefur það komið Íslendingunum á óvart hversu margir kaupendur eru mættir til Madrídar.

Og spænskir ferðaskipuleggjendur sjá tækifæri í auknu framboði á flugi frá Spáni til Íslands að sögn Sigríðar. Tíðari ferðir geri þeim nefnilega kleift að selja Íslandsferðir allt árið um kring og ná til fjölbreyttari hóps ferðalanga. En til marks um aukið flugframboð þá verða ferðirnar hingað frá Alicante, Barcelona og Madríd nú fleiri en þær hafa verið í langan tíma.

En það er ekki bara á Spáni sem íslensk ferðaþjónusta finnur fyrir meðbyr. Á bandaríska markaðnum gætir mikillar bjartsýni meðal þeirra ferðaskipuleggjenda sem Íslandsstofa hefur átt fundi með að undanförnu segir Sigríður Dögg. Nú þegar séu Íslandsferðir farnar að seljast upp þar í landi og ferðaskrifstofur því að fjölga brottförum. Til viðbótar eru fleiri spreyta sig á sölu ferðalögum til Íslands.

„Því virðist sem áhugi Bandaríkjamanna gagnvart Íslandi sem áfangastað sé gríðarlegur fyrir næsta ár,“ segir Sigríður Dögg.

Viltu prófa áskrift að Túrista? Þú færð 1000 króna afslátt fyrsta mánuðinn með því að nota afsláttarkóðann „NKL“ þegar áskrift er bókuð hér. Áskriftin endurnýjast sjálfkrafa í framhaldinu á fullu verði (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.