Flugrekstrarleyfi í Bandaríkjunum í höfn

Tvær Boeiung Dreamliner þotur merktar Norse Atlantic. MYND: NORSE ATLANTIC

Nú í heimsfaraldrinum hafa tvö ný lágfargjaldaflugfélög litið dagsins ljós í Noregi. Það fyrra er Flyr sem hóf áætlunarflug í lok júní síðastliðinn og einbeitir sér að flugi innan Evrópu. Það síðara er Norse Atlantic sem ætlar sér að hefja áætlunarflug yfir Norður-Atlantshafið í vor.

Liður þeirri áætlun er að opna starfsstöðvar í Bandaríkjunum og ráða hundruðir flugverja til starfa þar í landi. Félagið þurfti því að sækja um bandarískt flugrekstrarleyfi og í gær var það í höfn.

Í tilkynningu frá Norse Atlantic er haft eftir Bjørn Tore Larsen, stofnanda þess og forstjóra, að leyfisveitingin sé mikilvægur áfangi og ætlunin er sem fyrr að hefja áætlunarflug í vor. Til að byrja með gerir félagið ráð fyrir ferðum vestur um haf frá Ósló en ætlunin er að jafnframt að bjóða upp á Ameríkuflug frá London og París.

Fyrir lok síðasta árs tók Norse Atlantic á móti tveimur Boeing Dreamliner breiðþotum sem áður voru í flota Norwegian. Það félag hefur hætt öllu áætlunarflugi til Bandaríkjanna og því má segja að Norse Atlantic sé að taka við keflinu. Einn stærsti hluthafi félagsins er Bjørn Kjos, stofnandi og fyrrum forstjóri Norwegian.

Líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá mun hið nýja norska flugfélag veita íslensku flugfélögum samkeppni á nokkrum mikilvægum flugleiðum.