Framkvæmdastjórn Icelandair fullskipuð á ný

Rakel Óttarsdóttir og Sylvía Kristín Ólafsdóttir. Myndir: Icelandair

Sylvía Kristín Ólafsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri þjónustu og markaðsmála og Rakel Óttarsdóttir framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni hjá Icelandair Group. Þær munu taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair.

Í fyrra sögðu þrír af framkvæmdastjórum Icelandair upp störfum og í kjölfarið voru gerðar breytingar á skipulagi yfirstjórnar flugfélagsins. Þær fólu meðal annars í sér að framkvæmdastjórastöðunum var fjölgað.

Sylvía Kristín kemur aftur til liðs við Icelandair Group eftir að hafa starfað sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Origo síðastliðið ár. Rakel hefur starfað sem framkvæmdastjóri upplýsingatækni hjá Alvotech síðan seinni hluta árs 2020 og var áður yfirmaður upplýsingatæknisviðs og alþjóðlegrar verkefnastofu Össurar.