Framlengja átak um sóttvarnir og þrif í ferðageiranum

Fyrir rúmu ári síðan fór Ferðamálastofa af stað með verkefnið Hreint og öruggt sem kallast Clean&Safe á ensku. Tilgangurinn var að hjálpa ferðaþjónustufyrirtækjum að taka á öruggan og ábyrgan hátt á móti viðskiptavinum sínum á tímum heimsfaraldurs Covid-19.  

Viðtökur voru góðar samkvæmt því sem fram kemur í fréttabréfi Ferðamálastofu en um þrjú hundruð fyrirtæki hafa tekið þátt í verkefninu með því að fylla út sjálfsmat um sóttvarnir og þrif. Og í ljósi stöðu heimsfaraldursins þá hefur Ferðamálastofa ákveðið að framlengja átakið út þetta ár í það minnsta.

„Ferðamálastofa hvetur alla ferðaþjónustuaðila, bæði núverandi þátttakendur og aðra, til þátttöku í verkefninu og sýna í verki að ferðaþjónustan á Íslandi er áfram tilbúin að taka á móti gestum sínum af fagmennsku og ábyrgð,“ segir í fréttabréfi stofnunarinnar.