Gera aftur hlé á Íslandsfluginu frá Ósló

Flugvöllurinn í Gardermoen í Ósló. MYND: OSL

Það var í október síðastliðnum sem bæði SAS og Norwegian lögðu tímabundið niður Íslandsflug frá Ósló. Nú yfir hátíðarnar hafa bæði félög flogið hingað nokkrar ferðir frá norsku höfuðborginni en á morgun er komið að síðustu brottför SAS í bili. Þetta stærsta flugfélag Norðurlanda gerir nefnilega ekki ráð fyrir að taka upp þráðinn í Íslandsflugi sínu frá Ósló fyrr en í lok mars. Aftur á móti mun félagið áfram halda úti flugi sínum hingað frá Kaupmannahöfn.

Á ætlun Norwegian eru ferðir til Keflavíkurflugvallar út þessa viku en svo er komið að vikna vikna hléi. Félagið hefur svo áætlunarflug til Íslands á ný um miðjan febrúar.

Þangað til verður Icelandair eitt um flugið milli Íslands og Óslóar en það er jafnframt eina norska flugleiðin sem í boði er frá Keflavíkurflugvelli yfir vetrarmánuðina. Næsta sumar verður framboðið mun meira því þá mun Play hefja áætlunarflug til Stavanger og Þrándheims og þotur Icelandair munu taka stefnuna á Bergen frá og með vorinu.

Viltu nánari upplýsingar um flugumferð til Íslands á fyrsta fjórðungi ársins? Sendu þá línu á kristjan hjá turisti.is