Hærri skattur á þá sem fljúga stutta leið

Þota Icelandair við flugstöðina í Brussel. Mynd: Brussels Airport

Í yfirstandandi heimsfaraldri hefur umræðan um að takmarka flug innan Evrópu verið áberandi. Hafa ráðamenn þá sérstaklega horft til þess að takmarka flug milli borga þar sem góðar lestarsamgöngur eru í boði eða hækka opinberar álögur.

Seinni kosturinn var fyrir valinu í Belgíu því frá og með 1. apríl nk. leggst á sérstakur 10 evru skattur (um 1500 kr.) á öll fargjöld þar sem fljúga á innan við 500 kílómetra samkvæmt frétt Brussels Times.

Þessar nýi skattur leggst þar með á flugferðir frá Brussel til borga í vesturhluta Þýskalands og til höfuðborga Frakklands og Amsterdam.

Þeir sem fljúga lengri en 500 kílómetra frá Belgíu sleppa þó ekki við auknar álögur því 2 evrur (um 300 kr.) bætast við fargjöldin þeirra. Það á þá við um alla þá sem munu nýta sér ferðir Icelandair og Play frá Brussel frá og með vorinu.

Icelandair hefur um langt skeið flogið til Brussel en þær ferðir liggja nú niðri. Félagið hyggst taka upp þráðinn þann þriðja apríl og 24. maí fer Play jómfrúarferð sína til borgarinnar.


Viltu prófa áskrift að Túrista? Þú færð 1000 króna afslátt fyrsta mánuðinn með því að nota afsláttarkóðann „NKL“ þegar áskrift er bókuð hér. Áskriftin endurnýjast sjálfkrafa í framhaldinu á fullu verði (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.