Icelandair fikrar sig áfram í Frakklandi

Frá Nice í Frakklandi. Mynd: Nick Karvounis / Unsplash

Þó Frakkar séu meðal fjölmennustu þjóða í hópi ferðamanna hér á landi þá hefur Frakklandsflug Icelandair einskorðast við tíðar ferðir til Charles de Gaulle flugvallar í París.

Wow Air hélt líka úti ferðum þangað en bauð einnig upp á flug til Lyon og Nice. Og nú ætlar Icelandair að hefja flug til þeirrar síðarnefndu og er fyrsta brottför á dagskrá þann 6. júlí. Sú síðasta verður þann 27. ágúst og ferðirnar verða því sextán talsins. Til samanburðar gerir sumaráætlun Icelandair ráð fyrir tveimur til þremur ferðum á dag til Parísar.

Líkt og Túristi hefur áður greint frá þá ætlar Icelandair einnig að hefja flug til Rómar næsta sumar og eins verður þráðurinn tekinn upp í flugi til Montreal í Kanada.

Auk þessa tekur Icelandair yfir ferðir systurfélagsins Vita til Alicante næsta sumar.

Viltu prófa áskrift að Túrista? Þú færð 1000 króna afslátt fyrsta mánuðinn með því að nota afsláttarkóðann „NKL“ þegar áskrift er bókuð hér. Áskriftin endurnýjast sjálfkrafa í framhaldinu á fullu verði (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.