Íhuga að hefja sölu á áfengi um borð á nýjan leik

Þeir sem fljúga með Southwest fá enga áfenga drykki í háloftunum. MYND: SOUTHWEST

Strax í byrjun Covid-19 faraldursins tóku stjórnendur Southwest, stærsta lággjaldaflugfélags Bandaríkjanna, þá ákvörðun að hætta sölu áfengis um borð. Þetta var gert til að draga úr líkunum á dólgshætti meðal farþega. Nú er til skoðunar að heimila áfengisveitingar á nýjan leik í þotum Southwest frá og með vorinu.

Flugfreyjur og flugþjónar hjá flugfélagsins telja hins vegar réttara að bíða með breytingar þar til að krafan um grímunotkun hefur verið felld endanlega úr gildi samkvæmt því sem fram kemur í frétt CNBC. En hópur bandarískra flugdólga hefur stækkað hratt í heimsfaraldrinu. Í fyrra var til að mynda tilkynnt um nærri sex þúsund þess háttar tilfelli og í sjö af hverjum tíu skiptum var grímuskyldan uppspretta ólátanna.

Núverandi regla um grímunotkun í farþegarýmum gildir fram í miðjan mars en bandarísk yfirvöld hafa ekki gefið út hvort gildistími hennar verði framlengdur.