Max þota komin í nýju litina

Guli liturinn hverfur af flugvélum Icelandair í ár.

Um síðustu aldamót var útliti flugvéla Icelandair gjörbreytt og vörumerki félagsins hefur verið gult allar götur síðan, bæði á vængjum og stéli. En nú á að breyta til og guli liturinn er á útleið eins og áður hefur verið fjallað um.

Og nú hefur alla vega ein af þotum félagsins fengið andlitslyftingu því á dögunum náðist mynd af nýmálaðri Boeing Max 8 Icelandair á flugvellinum í Norwich á Englandi. Mynd af þotunni var birt í tísti TLspotting og eins og sjá má á athugasemdum þá fellur breytingin ekki í kramið hjá þeim sem leggja þar orð í belg.