Munu hætta að krefjast prófana hjá komufarþegum

Með boðuðum tilslökunum í Bretlandi verður einfaldara og ódýrara að ferðast til Bretlands. Mynd: London Heathrow

Þeir sem teljast fullbólusettir verða í dag að taka Covid-próf í síðasta lagi tveimur sólarhringum eftir komuna til Bretlands. Þetta á við um erlenda ferðamenn, Breta og aðra íbúa landsins. Það styttist hins vegar í að þessi krafa verði felld niður samkvæmt því sem fram kom í máli Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fyrr í dag.

Hann sagði að með þessu skrefi væri Bretland opið öllum svo lengi sem fólk væri full bólusett. Breski forsætisráðherra gaf þó ekki upp hvenær reglunum yrði breytt.

Það liggur því ekki fyrir á þessari stundu hvort Bretum verði gert einfaldara að ferðast út í heim fyrir næstu mánaðamót eða ekki. En febrúar er vanalega sá mánuður sem Bretar fjölmenna hingað til lands. Í venjulegu árferði koma hingað fleiri breskir ferðamenn í febrúar en samanlagt yfir sumarmánuðina þrjá.

__
Viltu prófa áskrift að Túrista? Þú færð fyrstu þrjá mánuðina fyrir aðeins 3.000 krónur í stað 6.750 kr. Áskriftin endurnýjast á fullu verði eftir þrjá mánuði en alltaf hægt að segja upp. Notaðu afsláttarkóðann „3000″ þegar þú pantar áskrift hér.