Nærri ein og hálf milljón farþega með Icelandair

Það voru fleiri sem nýttu sér innalandsflug Icelandair í nýliðnum desember í samanburði við desember 2019. Mynd: Icelandair

Það voru ríflega 1,2 milljónir farþega sem nýttu sér ferðir Icelandair til og frá Keflavíkurflugvelli í fyrra. Farþegar félagsins í flugi til og frá Reykjavíkurflugvelli voru 225 þúsund. Í heildina flutti félagið því tæplega eina og hálfa milljón farþega á síðasta ári sem er mikil framför frá því í fyrra. Þá voru þeir 890 þúsund.

Í nýliðnum desember flugu 169 þúsund farþegar með Icelandair og að jafnaði seldust um sjö af hverjum tíu sætum. Athygli vekur að farþegafjöldinn í innanlandsfluginu var meiri nú en í desember 2019. Aftur á móti er batinn í alþjóðafluginu ekki eins mikill. Þar nam samdrátturinn 43 prósentum.

Líkt og Túristi hefur áður greint frá þá hefur Icelandair skorið niður áætlun sína í janúar og febrúar vegna neikvæðra áhrifa ómíkrón afbrigðis kórónuveirunnar á eftirspurn eftir ferðalögum.