Of langt í næstu brottför til Búdapest

wizz budapest
Wizz Air er eina félagið sem heldur úti áætlunarflugi héðan til Búdapest. MYND: WIZZ AIR

Íslenska karlalandsliðið tók Ólympíumeistara Frakka í bakaríið á Evrópumeistaramótinu í handbolta í gærkvöld. Sigurinn var sérstaklega sætur í ljósi þess hversu margir leikmenn Íslands voru fjarverandi eftir að hafa greinst með kórónuveiruna. En segja má að fréttir af þeim forföllum hafa dregið úr áhuga Íslendinga á að ferðast til Búdapest þar sem Evrópumótið fer fram.

Icelandair felldi nefnilega niður hópferð sína á leikinn í gærkvöld vegna of lítillar þátttöku samkvæmt því sem segir á heimasíðu flugfélagsins. Ferðaáætlunin gerði ráð fyrir flugi til höfuðborgar Ungverjalands í hádeginu í gær og heimkomu nú í kvöld. Þessi pakkaferð átti að kosta 99.900 krónur á mann.

Wizz Air er eina flugfélagið sem heldur úti áætlunarflugi milli Íslands og Búdapest en því miður er ferðirnar fáar nú í ársbyrjun. Aðeins flogið vikulega og næsta brottför á dagskrá laugardagskvöldið 29. janúar. Þá er bara úrslitaleikurinn eftir á Evrópumótinu en vissulega möguleiki á að í þann leik mæti íslenska liðið og þá vonandi fullskipað.

Þeir sem vilja vera öruggir með flug út til Búdapest fyrir þann leik geta bókað far með Wizz Air á laugardagskvöldið og heim þriðjudaginn eftir. Flugmiðinn kostar að lágmarki 110 evrur eða um 16.100 krónur.

__
Viltu prófa áskrift að Túrista? Þú færð fyrstu þrjá mánuðina fyrir aðeins 3.000 krónur í stað 6.750 kr. Áskriftin endurnýjast á fullu verði eftir þrjá mánuði en alltaf hægt að segja upp. Notaðu afsláttarkóðann „3000″ þegar þú pantar áskrift hér.