Segir Icelandair hafa farið illa með hóp flugfreyja

Mynd: Icelandair

Icelandair bar að fara eftir starfsaldri þegar flugfélagið afturkallaði uppsagnir flugfreyja og flugþjóna sumarið 2020. Þetta er niðurstaða Félagsdóms í ágreiningi Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair sem birt var í dag. Dómurinn féllst ekki á þau rök flugfélagsins að um endurráðningar hefði verið um að ræða og því hefði félaginu átt að vera frjálst að ákveða hverjir skyldu endurráðnir.

Það voru um sjötíu flugfreyjur sem töldu framhjá sér gengið við þessa ákvörðun stjórnenda Icelandair og fáar þeirra eru í dag við störf hjá flugfélaginu segir Guðlaug Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, í svari til Túrista. Hún bætir því við að þessi staða hafi reynst flugfreyjunum erfið.

„Ekki má gleyma því að þessi hópur starfaði án athugasemda fyrir heimsfaraldur, missir vinnuna vegna hans í hópuppsögn en fær svo skell við lok uppsagnarfrests þegar búið er að skrifa undir nýjan kjarasamning. Það er óhætt að segja að farið var mjög illa með þennan hóp sem upplifir að réttlætið sigraði í dag,“ bætir Guðlaug við.