Sjá tækifæri í að fjölga vetrarferðunum til Íslands

Breska flugfélagið Jet2.com og ferðaskrifstofan Jet2CityBreaks gera ráð fyrir ennþá fleiri ferðum til Íslands á næstu vetrarvertíð en verið hefur fram að þessu. Hluti af viðbótinni er aukið áætlunarflug til Keflavíkurflugvallar frá Manchester og Birmingham og einnig bætast við reglulegar ferðir frá Bristol.

Í tilkynningu frá systurfélögunum tveimur segir að skýringin á aukinni áherslu á Ísland sé mikil eftirspurn meðal Breta eftir Íslandsferðum yfir vetrarmánuðina.

Auk áætlunarferðanna frá Manchester, Birmingham og Bristol þá munu þotur Jet2 fljúga hingað frá Belfast, Edinborg, East Midlands, Glasgow, Leeds, Newcastle og Stansted flugvelli í London. Í öllum tilvikum er að ræða stakar ferðir næsta haust og svo aftur í byrjun árs 2023.

Febrúar er vanalega sá mánuður sem Bretar fjölmenna til Íslands en líkt og fram kom hér á síðum Túrista í vikunni þá eru ennþá bundnar vonir við að svo verði að þessu sinni.