Skipta yfir í ensku

Á fimmtudaginn í þessari viku verður afkoma Icelandair Group á síðasta ári birt. Morguninn eftir munu þeir Bogi Nils Bogason, forstjóri flugfélagsins, og Ívar S. Kristinsson, fjármálastjóri, fara yfir uppgjörið og ræða horfurnar í rekstrinum.

Hingað til þessar ársfjórðungslegu kynningar stjórnenda Icelandair farið fram á íslensku en nú er ætlunin að skipta yfir í ensku.

Spurð um ástæður þess þá segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að breytingin skrifist á áhuga útlendinga á efni fundanna.

„Erlendum hluthöfum hefur fjölgað hjá okkur og við höfum verið að fá beiðnir frá erlendum fjárfestum um að afkomufundirnir séu á ensku og höfum ákveðið að verða við þeim,“ segir Ásdís.

Hún bendir jafnframt á að aðalfundur félagsins fari fram á ensku því þá taka erlendir stjórnarmenn þátt í dagskránni.

Langstærsti hluthafinn í Icelandair samsteypunni í dag er bandaríski lánasjóðurinn Bain Capital með nærri sextán prósent hlut. Fyrir heimsfaraldur var aftur móti bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital Management stærsti hluthafinn en þrátt fyrir það þá héldu stjórnendur flugfélagsins sig við íslensku á afkomufundum. Á því verður nú breyting á.