Tæplega 700 þúsund erlendir farþegar

Erlendir ferðamenn á landinu í fyrra voru um þriðjungur af því sem var metárið 2018. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Í nýliðnum desember innrituðu um 64 þúsund útlendingar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli en þessi talning hefur lengi verið nýtt til að leggja mat á fjölda erlendra ferðamanna hér á landi. Allt árið í fyrra voru erlendu farþegarnir 688 þúsund talsins.

Það er álíka fjöldi og árið 2012 þegar erlendir brottfararfarþegar voru 647 þúsund samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Ferðamálastofu. Metárið 2018 voru erlendu farþegarnir rúmlega 2,3 milljónir.

Segja má að ferðaárið í fyrra hafi í raun ekki hafist fyrr en þegar líða tók á júnímánuð. Fram að því var umferðin um Keflavíkurflugvöll mjög takmörkuð og ferðamennirnir fáir eins og sjá má hér fyrir neðan.