Tekjur af skíðafluginu mun lægri en vonast var til

Sá sem kaupir farmiða til Salzburg í dag borgar mun minna en þeir sem gengu frá pöntun í haust.

Það er stutt upp í fjölda mörg skíðasvæði frá flugvellinum í Salzburg. Mynd: Salzburgerland

Play hóf sölu á flugmiðum til Salzburg í Austurríki strax í byrjun síðasta sumars og stuttu síðar bætti Icelandair borginni við sitt leiðakerfi. Hjá báðum félögum er um að ræða vikuleg flug til austurrísku borgarinnar í tengslum við skíðavertíðina sem nú er hafin.

Fyrsta flug Icelandair til Salzburg var síðastliðinn laugardag og núna um helgina er komið að jómfrúarferð Play til borgarinnar.

Túristi hefur fylgst náið með þróun fargjalda á þessari flugleið og í verðkönnun sem gerð var í lok október þá kostuðu fargjöldin í vinsælustu brottfarirnar rúmlega eitt hundrað þúsund krónur hjá báðum félögum.

Í dag er hins vegar hægt að fá miða í þessar sömu brottfarir fyrir helmingi minna. Hjá Icelandair hefur farið lækkað úr rúmum 123 þúsund niður í 67 þúsund ef flogið er út þann 19. febrúar og heim viku síðar. Verðþróunin er álíka hjá Play þessa sömu daga því þar á bæ hafa sætin lækkað um 69 þúsund krónur. Úr 116 þúsund kr. niður í 47 þúsund kr.

Eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan þá hafa fargjöldin á öðrum dagsetningum líka farið niður á við frá því í haust.

Það er því útlit fyrir að tekjur flugfélaganna af útgerðinni í Salzburg verði töluvert minni en útlit var fyrir í haust. Óhætt er að fullyrði að minnkandi eftirspurn eftir skíðaferðum til Austurríkis skrifist á ómíkrón afbrigði kórónaveirunnar og þær sóttvarnaraðgerir sem gripið hefur til hér á landi og í Austurríki.

Og til marks um samdrátt í sölu þá flaug Icelandair 160 sæta Boeing Max þotur til fæðingarborgar Mozart um síðustu helgi og ráðgerir að gera slíkt hið sama núna á laugardaginn. Upphaflega voru hins vegar 183 sæta Boeing 757 þotur fráteknar í flugið til Salzburg.

Play hefur aftur á móti ekki kost á því að fljúga minni flugvélum til Austurríkis. Í öllum þremur þotum félagsins eru sæti fyrir 192 farþega eða fimmtungi fleiri en í Max flugvélum keppinautarins. Sú viðbót gæti skýrt að hluta til þá staðreynd að fargjöldin til Salzburg eru almennt nokkru lægri hjá Play en Icelandair næstu vikur.

Viltu prófa áskrift að Túrista? Þú færð 1000 króna afslátt fyrsta mánuðinn með því að nota afsláttarkóðann „NKL“ þegar áskrift er bókuð hér. Áskriftin endurnýjast sjálfkrafa í framhaldinu á fullu verði (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.