Tekjurnar jukust og tapið líka

Spár stjórnenda Wizz Air gera ráð fyrir fullum bata í sumar í samanburði við háannatímann árið 2019. Mynd: Wizz Air

Umsvifamesta erlenda flugfélagið á Keflavíkurflugvelli er hið ungverska Wizz Air og nú í morgun birti félagið uppgjör fyrir síðustu þrjá mánuði nýliðins árs. Niðurstaðan er tap upp á 268 milljónir evra sem jafngildir rúmlega 39 milljörðum króna. Þetta er ríflega tvöfalt meira tap en á sama tíma árið 2020 þrátt fyrir að tekjurnar hafi nærri þrefaldast á milli tímabila. Reikningsárið hjá Wizz Air byrjar 1. apríl ár hvert og lýkur því í lok mars.

Í tilkynningu skrifar forstjóri Wizz Air að útbreiðsla ómíkrón afbrigðisins hafi haft neikvæð áhrif á reksturinn undir lok síðasta ár. Engu að síður var sætanýtingin að jafnaði 77 prósent frá október til desember sem er framför um 14 prósentustig frá sömu mánuðum árið á undan. Skýringin liggur meðal annars í lágum fargjöldum að því segir í tilkynningu.

Sumaráætlun Wizz Air gerir meðal annars ráð fyrir reglulegu Íslandsflugi frá fjórum ítölskum borgum.