Það hægði á sölu flugmiða í ársbyrjun

Farþegar á Schiphol flugvelli í Amsterdam. Mynd: Schiphol

Farþegum í alþjóðaflugi fækkaði á nýliðnu ári um þrjá fjórðu í samanburði við árið 2019. Framboð á flugsætum minnkaði minna eða um nærri tvo þriðju sem þýðir að tómu sætin voru fleiri en áður. Sætanýtingin var því aðeins 58 prósent í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri samantekt IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga.

Í innanlandsflugi var samdrátturinn hlutfallslega miklu minni en í millilandaflugi. Þar voru farþegarnir 28 prósentum færri en árið 2019 og að jafnaði voru þrjú af hverjum fjórum sætum skipuð farþegum í innanlandsfluginu.

Það kemur einnig fram í samantekt IATA að frá því í nóvember sl. þá hefur sala á flugmiðum dregist saman og skrifast sú þróun á áhrif ómíkrón afbrigðisins og sóttvarnaraðgerða. Í nóvember nam farmiðasalan til að mynda 56 prósentum af því sem var í nóvember 2019. Hlutfallið fór niður í helming í desember en salan fyrstu tvær vikurnar í janúar jafnast hins vegar aðeins á við 45 prósent af því sem var á sama tíma árið 2019.