Vilja með nauðasamninginn fyrir Hæstarétt

airportexpress
Allrahanda Gray Line heldur meðal annars úti Airport Express sem býður upp á sætaferðir til og frá Leifsstöð. Mynd: Allrahanda Gray Line

Greiðsluskjóli ferðaþjónustufyrirtækisins Allrahanda Gray Line lauk í lok júní og þá lögðu forsvarsmenn fyrirtækisins fram tillögur að nauðasamningi. Héraðsdómur hafnaði að staðfesta þann samning í byrjun nóvember og nú hefur Landsréttur staðfest þann úrskurð.

Í tilkynningu sem forsvarsmenn Allrahanda Gray Line sendu frá sér í dag segir að niðurstaða Landsréttar byggi ekki á sömu forsendum og héraðsdómur gerði, heldur á túlkun á tímamörkum í ákvæðum laga um fjárhagslega endurskipulagningu vegna áhrifa heimsfaraldursins.

„Allrahanda GL er ekki sammála niðurstöðu Landsréttar með hvaða hætti ákvæði laganna um framangreind tímamörk beri að túlka og mun freista þess að fá úrskurðinn endurskoðaðan í Hæstarétti. Félagið hyggst leggja fram beiðni um kæruleyfi til Hæstaréttar. Meðan á því ferli stendur frestast réttaráhrif úrskurðar Landsréttar og heldur Allrahanda GL áfram rekstri í greiðsluskjóli,“ segir jafnframt í tilkynningunni.